Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 463. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 671  —  463. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum um lögmenn, nr. 77 15. júní 1998, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003–2004.)



1. gr.

    1. gr. laganna orðast svo:
    Með lögmanni er í lögum þessum átt við þann sem hefur leyfi til að vera hæstaréttarlögmaður eða héraðsdómslögmaður.
    Lögin taka einnig, eftir því sem við á, til lögmanna sem heimild hafa til að starfa hér á landi undir starfsheiti heimalands síns í samræmi við reglur Evrópska efnahagssvæðisins eða stofnsamning Fríverslunarsamtaka Evrópu. Dómsmálaráðherra setur nánari reglur um skráningu, skyldur, réttindi og störf slíkra lögmanna hér á landi, þar með talda þátttöku í félagi um rekstur lögmannsþjónustu.
    Lögmenn eru opinberir sýslunarmenn. Njóta þeir réttinda og bera skyldur samkvæmt því.

2. gr.

    2. málsl. 3. mgr. 2. gr. laganna fellur brott.

3. gr.

    3. mgr. 3. gr. laganna orðast svo:
    Í tengslum við Lögmannafélag Íslands skal starfa sjálfstæð úrskurðarnefnd lögmanna sem leysir úr málum eftir ákvæðum þessara laga. Úrskurðarnefndin hefur lögsögu yfir lögmönnum sem starfa hér á landi í samræmi við ákvæði 2. mgr. 1. gr. Skal nefndin skipuð þremur mönnum og jafnmörgum til vara. Skal hver nefndarmaður eiga þar sæti í þrjú ár í senn, en þó þannig að sæti eins nefndarmanns losni árlega. Einn nefndarmaður skal skipaður af Lögmannafélagi Íslands samkvæmt nánari ákvæðum í samþykktum þess, einn skal skipaður af dómsmálaráðherra og einn skipaður af Hæstarétti Íslands, en hann skal vera úr röðum sjálfstætt starfandi lögmanna sem fullnægja skilyrðum til að gegna embætti hæstaréttardómara. Nefndin kýs sér sjálf formann til eins árs í senn.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
     a.      4. tölul. 1. mgr. orðast svo: hefur lokið fullnaðarnámi í lögfræði með embættis- eða meistaraprófi við lagadeild háskóla sem viðurkenndur er hér á landi samkvæmt lögum um háskóla.
     b.      Á eftir 4. tölul. 1. mgr. kemur nýr töluliður er orðast svo: hefur starfað sex mánuði sem fulltrúi lögmanns, sem ekki hefur fengið undanþágu frá 1. mgr. 12. gr. eða eitt ár sem aðstoðarmaður dómara, fulltrúi ríkissaksóknara, ríkislögreglustjóra, lögreglustjórans í Reykjavík eða sýslumanns eða hefur hlotið sambærilega starfsreynslu að mati prófnefndar skv. 1. mgr. 7. gr.
     c.      4. mgr. orðast svo:
                  Dómsmálaráðherra er heimilt að setja í reglugerð fyrirmæli um undanþágu frá skilyrðum 5. og 6. tölul. 1. mgr. handa þeim sem hafa öðlast hliðstæð réttindi í öðru ríki.
     d.      Við greinina bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Erlendum lögmönnum sem heimild hafa til að starfa hér á landi í samræmi við ákvæði 2. mgr. 1. gr. má veita héraðsdómslögmannsréttindi. Dómsmálaráðherra setur nánari reglur um veitingu réttindanna.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Umsækjandi um réttindi til að vera héraðsdómslögmaður verður að standast prófraun sem þriggja manna prófnefnd annast. Dómsmálaráðherra skipar nefndina til fjögurra ára í senn. Skal skipa einn nefndarmann eftir tilnefningu Lögmannafélags Íslands, annan samkvæmt tilnefningu Dómarafélags Íslands en þann þriðja án tilnefningar og skal hann ekki vera starfandi lögmaður. Jafnmargir varamenn skulu skipaðir á sama hátt. Ráðherra skipar nefndinni formann, svo og varaformann úr röðum varamanna.
     b.      2. mgr. orðast svo:
                  Sá sem óskar eftir að þreyta prófraun til öflunar lögmannsréttinda skal áður hafa hlotið starfsreynslu skv. 5. tölul. 1. mgr. 6. gr. Prófraunin skal bæði vera bókleg og verkleg og ná til þeirra greina bóknáms og verkmenntunar sem helst varða rækslu lögmannsstarfa, þar á meðal siðareglna lögmanna. Prófnefnd skipuleggur námskeið til undirbúnings prófraun. Henni er heimilt að láta Lögmannafélag Íslands og þá háskóla sem kenna lögfræði til embættis- eða meistaraprófs, sbr. 4. tölul. 1. mgr. 6. gr., annast einstaka þætti námskeiðs og prófraunar. Í reglugerð, sem dómsmálaráðherra setur að fengnum tillögum prófnefndar, skal meðal annars kveðið nánar á um námsgreinar, námskeiðahald, framkvæmd prófraunar og lágmarksárangur til að standast hana.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Réttindi til að vera hæstaréttarlögmaður má veita þeim sem um þau sækir og fullnægir þessum skilyrðum:
                  1.      hefur haft réttindi til að vera héraðsdómslögmaður í fimm ár,
                  2.      fullnægir þeim kröfum sem er getið í 1.–3. tölul. 1. mgr. 6. gr.,
                  3.      hefur flutt ekki færri en 40 mál munnlega fyrir héraðsdómi eða sérdómstóli, þar af a.m.k. 10 einkamál sem fullnægja skilyrðum um áfrýjun til Hæstaréttar eða fengið hafa leyfi Hæstaréttar til áfrýjunar,
                  4.      sýnir fram á það með prófraun, sem felst í munnlegum flutningi fjögurra mála, sem flutt eru í Hæstarétti fyrir fimm eða sjö dómurum, þar af a.m.k. tveggja einkamála, að hann sé hæfur til að öðlast réttindin.
     b.      2. mgr. orðast svo:
                  Sá sem þreyta vill prófraun skv. 4. tölul. 1. mgr. skal tilkynna Hæstarétti þá ósk sína og sýna fram á, með staðfestingu dómsmálaráðherra, að hann fullnægi öðrum skilyrðum 1. mgr. Dómendur Hæstaréttar sem skipa dóm í viðkomandi máli meta hvort umsækjandi stenst prófraun.

7. gr.

    12. gr. laganna orðast svo:
    Lögmanni er skylt að hafa skrifstofu opna almenningi, sérstakan vörslufjárreikning í viðurkenndri bankastofnun og gilda starfsábyrgðartryggingu, allt samkvæmt því sem nánar segir í 19., 23. og 25. gr.
    Lögmaður getur sótt um undanþágu til Lögmannafélags Íslands frá þeim skyldum sem um ræðir í 1. mgr. á meðan hann:
     1.      gegnir föstu starfi hjá opinberri stofnun eða einkaaðila, enda veiti hann engum öðrum þjónustu sem lögmaður,
     2.      starfar hjá öðrum lögmanni, sbr. 3. mgr. 11. gr., eða
     3.      gegnir föstu starfi hjá félagasamtökum, enda veiti hann engum öðrum en þeim samtökum eða félagsmönnum þeirra þjónustu og skal þjónustan falla innan starfssviðs samtakanna.
    Lögmaður sem leitar undanþágu skv. 2. mgr. skal leggja fram samþykki vinnuveitanda síns fyrir henni. Ef undanþágu er leitað skv. 2. tölul. 2. mgr. skal fylgja staðfesting um þá ábyrgð vinnuveitanda sem um ræðir í 3. mgr. 11. gr. Ef undanþágu er leitað skv. 3. tölul. 2. mgr. ber vinnuveitandi húsbóndaábyrgð á fjárvörslu og þeim störfum lögmannsins sem starfsábyrgðartryggingar ná til.
    Þeim sem fengið hefur undanþágu skv. 1. eða 3. tölul. 2. mgr. er óheimilt að nefna sig lögmann nema þegar hann kemur fram fyrir hönd þeirra sem þar greinir og í málum sem varða hagsmuni þeirra. Með undanþágubeiðni skv. 1. eða 3. tölul. 2. mgr. skal lögmaður láta fylgja yfirlýsingu sína um að hann muni einungis nýta réttindi sín innan þeirra marka er þar greinir.
    Vinnuveitanda jafnt sem lögmanni er skylt að tilkynna Lögmannafélagi Íslands ef vinnusambandi þeirra er slitið.
    Ef lögmaður fullnægir annars ekki þeim skyldum sem um getur í 1. mgr. ber honum að leggja réttindi sín inn til dómsmálaráðuneytisins og skulu þau lýst óvirk.

8. gr.

    13. gr. laganna orðast svo:
    Lögmannafélag Íslands hefur eftirlit með því að lögmaður uppfylli ávallt skilyrði fyrir lögmannsréttindum skv. 6., 9. og 12. gr.
    Lögmanni er skylt að veita Lögmannafélagi Íslands eða löggiltum endurskoðanda, sem félagið tilnefnir í því skyni, allar nauðsynlegar upplýsingar til að metið verði hvort hann fullnægi þeim skyldum sem mælt er fyrir um í 12. gr. Ber sá sem gegnir eftirliti þagnarskyldu um það sem hann kemst að raun um, að því leyti sem það varðar ekki tilgang eftirlitsins. Ákveði stjórn félagsins að fela endurskoðanda félagsins að rannsaka fjárreiður lögmanns er félaginu heimilt að krefja lögmanninn um greiðslu kostnaðar við rannsóknina.
    Komi fram við eftirlit skv. 1. mgr. að lögmaður fullnægi ekki þeim skilyrðum sem þar greinir, sbr. þó 4. mgr., ber Lögmannafélagi Íslands að leggja til við dómsmálaráðherra að réttindi hans verði felld niður. Skal ráðherra taka rökstudda afstöðu til slíkrar tillögu innan tveggja mánaða frá því að hún berst honum.
    Verði lögmaður sviptur sjálfræði eða fjárræði falla réttindi hans þegar sjálfkrafa niður. Sama á við ef bú lögmanns er tekið til gjaldþrotaskipta. Skal skiptastjóri þá tilkynna dómsmálaráðuneytinu svo fljótt sem verða má um töku búsins til gjaldþrotaskipta með ábyrgðarbréfi eða á annan jafntryggan hátt.
    Hafi lögmaður sem ákvæði 23. gr. tekur til ekki skilað stjórn Lögmannafélags Íslands yfirlýsingu um stöðu vörslufjárreiknings skv. 2. mgr. 23. gr. fyrir 1. október ár hvert, eða slík yfirlýsing hefur ekki reynst fullnægjandi, ber Lögmannafélagi Íslands að leggja til við dómsmálaráðherra að réttindi hans verði felld niður. Skal ráðherra taka rökstudda afstöðu til slíkrar tillögu innan tveggja mánaða frá því að hún berst honum.

9. gr.

    14. gr. laganna orðast svo:
    Nú berst úrskurðarnefnd lögmanna kvörtun á hendur lögmanni og telur sýnt að hann hafi í störfum sínum brotið svo mjög eða ítrekað gegn lögum eða þeim reglum sem um getur í 2. mgr. 5. gr. að ekki verði við unað að hann hafi áfram réttindi til að vera lögmaður. Getur þá nefndin í rökstuddu áliti lagt til við dómsmálaráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum ef sakir eru miklar. Nefndin getur lagt til niðurfellingu eða sviptingu þó svo að lögmaðurinn hafi lagt réttindi sín inn til dómsmálaráðuneytisins og þau hafi verið lýst óvirk skv. 2. mgr. 15. gr.
    Ráðherra ber að taka afstöðu til tillögu skv. 1. mgr. innan tveggja mánaða frá því að hún berst honum.

10. gr.

    15. gr. laganna orðast svo:
    Taki lögmaður við opinberu starfi sem dómsmálaráðherra telur ósamrýmanlegt handhöfn virkra lögmannsréttinda skal hann leggja réttindi sín inn til dómsmálaráðuneytisins og skulu réttindin lýst óvirk.
    Lögmanni er alltaf frjálst að leggja réttindi sín inn til dómsmálaráðuneytisins og skulu þau þá lýst óvirk.

11. gr.

    16. gr. laganna orðast svo:
    Hafi dómsmálaráðherra lýst réttindi lögmanns óvirk, þau fallið niður eða verið felld niður samkvæmt einhverju því sem í 12.–15. gr. segir skulu þau lýst virk að nýju eða veitt honum að nýju eftir umsókn hans án endurgjalds eða prófraunar, enda fullnægi hann öllum öðrum skilyrðum til að njóta þeirra. Hafi réttindi lögmanns verið felld niður skv. 5. mgr. 13. gr. skal að auki leita staðfestingar Lögmannafélags Íslands á því að umsækjandi hafi skilað til félagsins fullgildri yfirlýsingu um stöðu vörslufjár reiknings.
    Hafi lögmaður verið sviptur réttindum samkvæmt því sem í 14. gr. segir getur hann að fimm árum liðnum sótt um heimild til að gangast undir prófraun skv. 7. gr. og sækja í kjölfarið á ný um réttindi til að vera héraðsdómslögmaður. Slíka heimild veitir dómsmálaráðherra að fengnum meðmælum Lögmannafélags Íslands.

12. gr.

    17. gr. laganna orðast svo:
    Dómsmálaráðherra skal auglýsa veitingu réttinda í Lögbirtingablaði. Sama gildir um sviptingu þeirra, svo og ef þau eru felld niður, falla sjálfkrafa niður eða eru lýst óvirk.
    Í dómsmálaráðuneytinu skal halda skrá um lögmenn sem hafa virk lögmannsréttindi. Skal þar greina sérstaklega þá sem hafa hlotið undanþágu með þeim hætti sem greinir í 2. mgr. 12. gr. Skrá þessi skal vera opin almenningi.

13. gr.

    5. mgr. 19. gr. laganna fellur brott.

14. gr.

    23. gr. laganna orðast svo:
    Lögmanni sem ekki hefur fengið undanþágu frá skyldum 1. mgr. 12. gr. er skylt að halda fjármunum þeim sem hann tekur við í þágu annarra aðgreindum frá eigin fé og er skylt að hafa sérstakan vörslufjárreikning í viðurkenndri bankastofnun og varðveita þar slíka fjármuni.
    Lögmaður skal fyrir 1. október ár hvert senda Lögmannafélagi Íslands, á þar til gerðu eyðublaði, yfirlýsingu sem staðfest er af löggiltum endurskoðanda um að staða vörslufjárreiknings hinn 31. desember fyrra árs sé ekki lægri en staða vörslufjár samkvæmt bókhaldi lögmannsins. Samtímis skal lögmaður senda félaginu upplýsingar um verðbréf sem voru í hans vörslu 31. desember fyrra árs sem staðfestar eru af löggiltum endurskoðanda.
    Dómsmálaráðherra skal setja nánari reglur um vörslufjárreikninga að fengnum tillögum Lögmannafélags Íslands.

15. gr.

    Við 1. mgr. 26. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Nefndin vísar frá sér ágreiningsmáli um endurgjald ef lengri tími en eitt ár er liðinn frá því að kostur var á að koma því á framfæri.

16. gr.

    2. mgr. 27. gr. laganna orðast svo.
    Í máli skv. 1. mgr. getur úrskurðarnefndin fundið að vinnubrögðum eða háttsemi lögmanns eða veitt honum áminningu. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin brugðist svo við sem um ræðir í 1. mgr. 14. gr.

17. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 28. gr. laganna:
     a.      2. mgr. orðast svo:
                  Úrskurðarnefndinni er heimilt að taka upp hæfilegt málagjald sem greiða skal við framlagningu ágreiningsmáls eða kvörtunar fyrir nefndinni. Sé grundvöllur fyrir erindinu staðreyndur með úrskurði nefndarinnar skal endurgreiða innheimt málagjald til málshefjanda.
     b.      Á eftir 2. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar er orðast svo:
                  Úrskurðarnefndinni er heimilt að skylda málsaðila til að greiða gagnaðila sínum málskostnað vegna reksturs máls fyrir henni.
                  Úrskurðarnefndinni er heimilt, ef sérstaklega stendur á, að ákveða að málsaðilar greiði kostnað sem hlýst af störfum nefndarinnar við mál þeirra.

18. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 29. gr. laganna:
     a.      2. mgr. orðast svo:
                  Þeim einum er heimilt að nota starfsheitið lögmaður, héraðsdómslögmaður eða hæstaréttarlögmaður eða skammstafanirnar hdl. og hrl. sem hefur virk réttindi samkvæmt lögum þessum og uppfyllir ákvæði 12. gr. Þeim sem hafa virk réttindi með undanþágu skv. 1. og 3. tölul. 2. mgr. 12. gr. er þó einungis heimilt að nota starfsheitin innan þeirra marka er í 12. gr. segir. Brot gegn þessu ákvæði varðar sektum.
     b.      Við greinina bætist ný málsgrein, sem verður 3. mgr., er orðast svo:
                  Það varðar sektum að nota starfsheiti erlendra lögmanna sem greind eru í reglum sem dómsmálaráðherra setur skv. 2. mgr. 1. gr. án þess að hafa hlotið tilskilið starfsleyfi í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins.

19. gr.

    2., 4., 5. og 6. mgr. 31. gr. laganna falla brott.

20. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða í lögunum orðast svo:
    Þegar skipað er í fyrsta sinn í úrskurðarnefnd lögmanna samkvæmt lögum þessum skulu einn aðalmaður og varamaður hans skipaðir til eins árs, annar aðalmaður ásamt varamanni til tveggja ára og þriðji aðalmaður ásamt varamanni til þriggja ára. Skal skipunartími hvers ákveðinn með hlutkesti þegar ákveðið hefur verið hverjir veljast þar til starfa.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta til breytinga á lögum um lögmenn, nr. 77/1998, er unnið sameiginlega af starfsmönnum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og stjórn Lögmannafélags Íslands. Tilefni þess að ákveðið var að efna til endurskoðunar á lögum um lögmenn er að við framkvæmd laganna hafa komið fram ýmis atriði sem talið er að betur mættu fara.
    Ráðuneytið og Lögmannafélagið hafa um alllangt skeið haldið samráðsfundi um málefni lögmanna og á slíkum samráðsfundi varð samkomulag um að efna til endurskoðunarinnar. Ritaði ráðuneytið félaginu hinn 22. júní 2001 bréf og óskaði tilnefningar af hálfu þess á fulltrúum til að vinna með ráðuneytinu að endurskoðuninni. Félagið tilnefndi þá Ásgeir Thoroddsen, hrl., formann félagsins, og Helga Birgisson, hrl., varaformann þess, til þess að vinna að þessari endurskoðun af félagsins hálfu ásamt framkvæmdastjóra félagsins, Ingimar Ingasyni. Vinna við endurskoðun laganna hélt áfram eftir að ný stjórn tók við í Lögmannafélagi Íslands og hefur sú stjórn er tók við á árinu 2003 tekið við af þeim sem fyrst voru skipaðir og unnið að endurskoðuninni.
    Breytingar þær sem felast í frumvarpinu taka til allmargra ákvæða laganna en sérstaklega þykir rétt að benda á eftirtalin atriði:
    1.     Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að við 1. gr. laganna bætist ákvæði um að lögin taki einnig til erlendra lögmanna sem heimild hafa til að starfa hér í samræmi við reglur Evrópska efnahagssvæðisins eða stofnsamning Fríverslunarsamtaka Evrópu og að dómsmálaráðherra verði veitt heimild til að setja nánari reglur um starfsemi slíkra lögmanna hér á landi. Er hér einkum um að ræða störf þeirra lögmanna sem samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið hafa hér staðfestu og starfa undir starfsheiti heimalands síns og geta eftir tiltekinn starfstíma öðlast rétt til þess að fá hérlend lögmannsréttindi en einnig þá sem hafa heimild til að veita hér þjónustu án staðfestu undir starfsheiti heimalands síns.
    2.     Skv. 4. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á 4. tölul. 1. mgr. 6. gr. laganna þannig að ekki verði lengur skilyrði að menn hafi lokið embættisprófi í lögfræði við Háskóla Íslands heldur uppfylli þeir sem lokið hafa fullnaðarnámi í lögfræði með embættis- eða meistaraprófi við lagadeild háskóla, sem viðurkenndur er af menntamálaráðuneytinu samkvæmt lögum um háskóla, skilyrði 4. tölul. Lagt er til að bætt verði nýju ákvæði í 6. gr. sem verði 5. tölul. þess efnis að sá sem sækir um að öðlast héraðsdómslögmannsréttindi þurfi, auk þess að standast sérstaka prófraun, að afla sér starfsreynslu annaðhvort sem lögmannsfulltrúi eða starfsmaður tiltekinna embætta ríkisins. Eins og fram kemur í 5. gr. frumvarpsins skal sá sem þreyta vill prófraunina áður hafa lokið starfsreynslu samkvæmt áðurnefndum 5. tölul. Þá er lagt til að við 6. gr. bætist ný málsgrein varðandi þá lögmenn sem heimild hafa til að starfa hér á landi í samræmi við ákvæði 2. mgr. 1. gr. þar sem heimilað verði að veita þeim héraðsdómslögmannsréttindi og ráðherra setji nánari reglur um veitingu réttindanna í reglugerð.     3.     Skv. 6. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á 9. gr. laganna sem fjallar um hvernig héraðsdómslögmaður getur öðlast leyfi til að vera hæstaréttarlögmaður. Samkvæmt núgildandi lögum skal sá sem óskar eftir réttindum til að vera hæstaréttarlögmaður hafa haft réttindi til að vera héraðsdómslögmaður í fimm ár, fullnægja þeim kröfum sem getið er í 1.–3. tölul. 1. mgr. 6. gr. laganna, hafa flutt ekki færri en þrjátíu mál munnlega fyrir héraðsdómi eða sérdómstóli og sýna fram á það með prófraun, sem felst í flutningi tveggja mála fyrir Hæstarétti, að hann sé hæfur til að öðlast réttindin. Þá skal hann beina til sérstakrar prófnefndar umsókn um að fá að þreyta pófraunina ásamt staðfestingu dómsmálaráðherra á að hann fullnægi öðrum skilyrðum 1. mgr. 9. gr. Samkvæmt frumvarpinu er lagt til að sá sem óskar eftir að öðlast þessi réttindi skuli uppfylla skilyrðin um að hafa haft réttindi til að vera héraðsdómslögmaður í fimm ár, fullnægja kröfum 1.–3. tölul. 1. mgr. 6. gr. laganna, hafa flutt fyrir héraðsdómi eða sérdómstóli a.m.k. 40 mál munnlega, þar af a.m.k. 10 einkamál sem fullnægja skilyrðum um áfrýjun til Hæstaréttar eða fengið hafa leyfi Hæstaréttar til áfrýjunar, og sýna fram á með prófraun sem felst í munnlegum flutningi fjögurra mála sem flutt eru fyrir fimm eða sjö dómurum í Hæstarétti að hann sé hæfur til að öðlast réttindin. Skulu a.m.k. tvö málanna vera einkamál. Í stað þess að beina til sérstakrar prófnefndar umsókn um að fá að þreyta prófraunina skal viðkomandi tilkynna Hæstarétti ósk sína og leggja fram staðfestingu dómsmálaráðherra á að hann fullnægi skilyrðum 1.–3. tölul. 6. gr. Dómendur Hæstaréttar sem skipa dóm í viðkomandi máli meta svo hvort viðkomandi hafi staðist prófraun.
    4.     Lögð er til nokkur breyting á orðalagi í 12.–17. gr. laganna þegar um er að ræða að lögmaður hyggst ekki nýta réttindi sín til lögmannsstarfa eða uppfyllir ekki lengur skilyrði til þess að njóta réttindanna. Í núgildandi lögum skal lögmaður sem ekki fullnægir skilyrðum 1. mgr. 12. gr. skila leyfisbréfi sínu og skulu réttindi hans felld niður. Þá skal Lögmannafélag Íslands leggja til við dómsmálaráðherra að réttindi lögmanns verði felld úr gildi komi fram við eftirlit félagsins skv. 13. gr. laganna að lögmaður uppfyllir ekki skilyrði fyrir lögmannsréttindum skv. 6., 9. og 12. gr. Þá getur úrskurðarnefnd lögmanna, skv. 1. mgr. 14. gr. laganna, lagt til við dómsmálaráðherra að réttindi lögmanns verði felld niður um tiltekinn tíma eða ótímabundið hafi lögmaður í störfum sínum brotið svo mjög eða ítrekað gegn lögum eða siðareglum lögmanna. Taki lögmaður við opinberu starfi sem dómsmálaráðherra telur ósamrýmanlegt handhöfn lögmannsréttinda skulu réttindin felld niður, sbr. 1. mgr. 15. gr. laganna. Þá er lögmanni alltaf frjálst að afsala sér réttindum sínum, sbr. 2. mgr. 15. gr.
    Í frumvarpinu er lagt til að ef lögmaður fullnægir ekki þeim skyldum sem um getur í 1. mgr. 12. gr. beri honum að leggja réttindi sín inn og verða réttindin þá lýst óvirk. Sama er ef lögmaður tekur við opinberu starfi sem dómsmálaráðherra telur ósamrýmanlegt handhöfn virkra lögmannsréttinda. Skal hann þá leggja réttindi sín inn til ráðuneytisins og skulu réttindin lýst óvirk. Þá verður lögmanni ávallt frjálst að leggja réttindi sín inn til ráðuneytisins og skulu réttindin þá lýst óvirk.
    Þá er lagt til að komi fram við eftirlit Lögmannafélagsins skv. 1. mgr. 13. gr. að lögmaður fullnægir ekki þeim skilyrðum er þar greinir, þ.e. þeim skilyrðum sem fram koma í 6., 9. og 12. gr. laganna, að undanskildum þeim tilvikum sem fram koma í 4. mgr. 8. gr. frumvarpsins, beri Lögmannafélaginu að leggja til við dómsmálaráðherra að réttindi hans verði felld niður. Þá getur úrskurðarnefnd lögmanna lagt til við dómsmálaráðherra að réttindi lögmanns verði felld niður um tiltekinn tíma eða hann sviptur réttindum. Nýmæli er í 4. mgr. 8. gr. frumvarpsins um að verði lögmaður sviptur sjálfræði eða fjárræði eða verði bú hans tekið til gjaldþrotaskipta falli réttindi hans þegar niður. Þá er einnig það nýmæli í 5. mgr. 8. gr. frumvarpsins að skili lögmaður ekki til stjórnar Lögmannafélagsins yfirlýsingu um stöðu vörslufjárreiknings eða reynist yfirlýsingin ekki fullnægjandi beri Lögmannafélaginu að leggja til við dómsmálaráðherra að réttindi hans verði felld niður.
    Samkvæmt þessu geta réttindi lögmanns fallið niður á eftirfarandi hátt:
     1.      Lögmaður leggur réttindi sín inn og þau eru lýst óvirk, sbr. 7. og 10. gr. frumvarpsins.
     2.      Réttindi lögmanns eru felld niður, tímabundið eða ótímabundið, sbr. 8. og 9. gr. frumvarpsins.
     3.      Réttindi lögmanns falla sjálfkrafa niður, sbr. 8. gr. frumvarpsins.
     4.      Lögmaður er sviptur réttindum sínum, sbr. 9. gr. frumvarpsins.
                  Rétt þykir að gera greinarmun á því hvort lögmaður leggur sjálfviljugur inn réttindi sín til ráðuneytisins eða hvort þau falla sjálfkrafa niður, eru felld niður eða hann er sviptur þeim þar sem hann fullnægir ekki lengur skilyrðum til að vera lögmaður eða úrskurðarnefnd lögmanna hefur talið hann hafa brotið af sér á þann hátt að ekki verði við unað að hann hafi lögmannsréttindi.
     5.      Í 18. gr. frumvarpsins er lögð til sú breyting á 29. gr. laganna að aðeins þeir sem hafa virk lögmannsréttindi megi nota starfsheitið lögmaður, héraðsdómslögmaður eða hæstaréttarlögmaður, eða skammstafanirnar hdl. og hrl., en þeim sem fyrir sjúkleika eða aldurs sakir hafa látið af störfum sem lögmenn verði heimilt að nota áfram titilinn með forskeytinu fyrrverandi eða fv. Þá þykir rétt að taka sérstaklega fram að það varði sektum að nota starfsheiti erlendra lögmanna án þess að hafa hlotið starfsleyfi í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins.
    Loks er gert ráð fyrir að um gildistöku laganna fari skv. 7. gr. laga um birtingu laga og stjórnvaldaerinda, nr. 64/1943, með síðari breytingum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Eins og fram kom í almennum athugasemdum hér að framan þá er lagt til að tekið verði fram í lögunum að þau taki einnig, eftir því sem við á, til þeirra lögmanna sem heimild hafa til að starfa hér á landi undir starfsheiti heimalands síns í samræmi við reglur Evrópska efnahagssvæðisins eða stofnsamning Fríverslunarsamtaka Evrópu og dómsmálaráðherra setji nánari reglur um störf þeirra. Er hér einkum um að ræða tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/5/EB frá 16. febrúar 1998, um að auðvelda lögmönnum að starfa til frambúðar í öðru aðildarríki en þar sem þeir hlutu starfsmenntun sína og hæfi, og tilskipun ráðsins 77/249/EBE frá 22. mars 1977, um að auðvelda lögmönnum að neyta réttar til að veita þjónustu, en báðar þessar tilskipanir hafa verið teknar upp í EES-samninginn.

Um 2. gr.

    Lagt er til að 2. gr. verði óbreytt að öðru leyti en því að 2. málsl. 3. mgr. verði felldur brott þar sem heimild fyrir dómsmálaráðherra til að setja reglugerð um starfsemi þeirra lögmanna er hér starfa á grundvelli tilskipana Evrópusambandsins er í 1. gr. frumvarpsins.

Um 3. gr.

    Lagt er til að skipun úrskurðarnefndar sem fjallað er um í 3. mgr. 3. gr. gildandi laga verði breytt þannig að hún verði skipuð þremur mönnum í stað fimm. Lagt er til að skipunartími verði þrjú ár í stað fimm ára. Varðandi skipun nefndarmanna er lagt til að einn nefndarmaður verði skipaður af Lögmannafélagi Íslands en nú eiga sæti í nefndinni tveir nefndarmenn kosnir af félaginu, einn verði skipaður af Hæstarétti og einn af dómsmálaráðherra. Þá er lagt til að nefndarmaður sá sem Hæstiréttur tilnefnir nú verði skipaður af Hæstarétti. Lagt er til að í upphafi greinarinnar komi orðið sjálfstæð úrskurðarnefnd til þess leggja áherslu á að nefndin lýtur hvorki Lögmannafélagi Íslands né dómsmálaráðherra í störfum sínum.
    Þá er lögð til sú breyting að tekið verði fram í lögunum að úrskurðarnefndin geti einnig leyst úr málum er varða erlenda lögmenn sem heimild hafa til að starfa hér á landi. Er hér átt við þá lögmenn sem hér starfa á grundvelli tilskipana Evrópusambandsins.

Um 4. gr.

    Samkvæmt núgildandi 4. tölul. 1. mgr. 6. gr. laga um lögmenn er það skilyrði sett að sá sem sækir um réttindi til að vera héraðsdómslögmaður skuli hafa lokið embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands. Þar sem Háskóli Íslands er ekki lengur eini háskólinn á Íslandi sem kennir lögfræði þykir rétt að leggja til þá breytingu á framangreindum 4. tölul. að þeir uppfylli skilyrðið sem lokið hafa fullnaðarnámi í lögfræði með embættis- eða meistaraprófi við lagadeild háskóla sem viðurkenndur er af menntamálaráðuneytinu samkvæmt lögum um háskóla. Með orðinu fullnaðarnám í lögfræði er vísað til þess að viðkomandi hafi lokið heildstæðu laganámi, bæði grunn- og framhaldsgráðu eða embættisprófi, og því ekki nægilegt til þess að uppfylla skilyrðið að hafa lokið grunnnámi í annarri grein en lögfræði þótt viðkomandi hafi lokið meistaraprófi í lögfræði. Er litið til þess að eðlilegt er að gera þá kröfu að lögmenn hafi öðlast þekkingu á helstu grunngreinum lögfræðinnar, svo sem réttarheimildafræði og lögskýringum, kröfurétti, skaðabótarétti, refsirétti og réttarfari. Að sjálfsögðu er æskilegt að lögmenn hafi þekkingu á ýmsum öðrum sviðum lögfræðinnar, en hér eru hins vegar nefnd dæmi um fræðigreinar lögfræðinnar sem gera verður kröfu um að lögmenn hafi tileinkað sér í námi og iðulega reynir á í störfum þeirra, enda hefur þeim jafnan verið gerð skil í laganámi hérlendis sem erlendis.
    Nýr töluliður bætist við 1. mgr. 6. gr. og verður 5. tölul. þar sem lagt er til að eitt af skilyrðum þess að geta öðlast réttindi til að vera héraðsdómslögmaður sé að viðkomandi hafi öðlast nokkra starfsreynslu annaðhvort sem fulltrúi lögmanns eða sem starfsmaður tiltekinna embætta ríkisins. Með lögmanni er hér einungis átt við þá lögmenn sem uppfylla skilyrði 1. mgr. 12. gr. laganna, þ.e. hafa opna skrifstofu, vörslufjárreikning og gilda starfsábyrgðartryggingu. Reynslan hefur sýnt að nauðsynlegt er að menn hafi öðlast nokkra starfsreynslu áður en þeir fái lögmannsréttindi.
    Þá er lögð til sú breyting á 6. gr. að við bætist ný málsgrein þar sem tekið verði fram að þeim lögmönnum sem heimild hafa til að starfa hér á landi í samræmi við ákvæði 2. mgr. 1. gr. megi veita héraðsdómslögmannsréttindi. Er hér fyrst og fremst átt við þá erlendu lögmenn sem hér starfa á grundvelli heimildar í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins um að auðvelda lögmönnum að starfa til frambúðar í öðru aðildarríki en þar sem þeir hlutu starfsmenntun sína og hæfi 98/5/EB. Jafnframt er dómsmálaráðherra veitt heimild til að setja nánari reglur um veitingu þessara réttinda.

Um 5. gr.

    Lagðar eru til nokkrar breytingar á 7. gr. núgildandi laga. Má þar fyrst nefna að lögð er til breyting á því hverjir tilnefni í prófnefnd skv. 7. gr. Í núgildandi lögum er gert ráð fyrir að einn nefndarmaður sé tilnefndur af Lögmannafélagi Íslands einn samkvæmt tilnefningu lagadeildar Háskóla Íslands en sá þriðji skuli vera án tilnefningar. Þar sem Háskóli Íslands er ekki lengur eini háskólinn sem kennir lögfræði er lagt til að einn nefndarmaður verði tilnefndur af Dómarafélagi Íslands einn nefndarmaður verði án tilnefningar en einn tilnefndur af Lögmannafélagi Íslands. Í öðru lagi er lögð til sú breyting að viðkomandi hafi hlotið starfsreynslu skv. 5. tölul. 1. mgr. 6. gr. laganna áður en hann gengst undir prófraun skv. 7. gr.

Um 6. gr.

    Lögð er til breyting á ákvæðum 9. gr. sem fjallar um skilyrði þess að öðlast réttindi til að vera hæstaréttarlögmaður. Breytingin felst m.a. í því að lagt er niður það fyrirkomulag að leita þurfi samþykkis sérstakrar prófnefndar sem metur hvort mál sé tækt sem prófmál. Komið hefur fram gagnrýni á að erfitt geti verið að fá mál sem nefndin samþykkir að séu tiltæk sem prófmál og lögmenn eigi misjafnan aðgang að prófmálum. Lögð er áhersla á að tilgangur prófraunar sé að prófa málflutningshæfni lögmanns. Er því lagt til að á þeim fimm árum sem lögmaður skal hafa haft héraðsdómslögmannsréttindi skuli hann hafa flutt ekki færri en 40 mál munnlega fyrir héraðsdómi eða sérdómstóli í stað 30 eins og er í dag. Af þessum 40 málum skulu 10 mál fullnægja skilyrðum um áfrýjun til Hæstaréttar eða hafa fengið leyfi Hæstaréttar til áfrýjunar. Þá er lagt til að prófmálum verði fjölgað úr tveimur í fjögur og skulu þau flutt í Hæstarétti fyrir fimm eða sjö dómurum. Þá skulu a.m.k. tvö þessara prófmála vera einkamál. Með þessari breytingu er verið að jafna aðgang lögmanna að hæstaréttarlögmannsréttindum. Vísast að öðru leyti til umfjöllunar um ákvæðið í 3. tölul. almennra athugasemda hér að framan.

Um 7. gr.

    Lagðar eru til nokkrar breytingar á 12. gr., einkum 1. mgr. Í fyrsta lagi er lögð til breyting á orðalagi varðandi vörslufjárreikninga þannig að skýrar er kveðið á um skyldu lögmanns til að hafa sérstakan vörslufjárreikning, en í núgildandi ákvæði er aðeins kveðið á um að lögmaðurinn skuli varðveita fjármuni annarra á vörslufjárreikningum. Með þessu eru tekin af öll tvímæli um skyldu lögmanna til að hafa sérstakan vörslufjárreikning, hvort sem þeir varðveita fé annarra eða ekki, auk þess sem ákvæðið auðveldar Lögmannafélagi Íslands eftirlitshlutverk sitt með fjárvörslum lögmanna. Í öðru lagi er kveðið á um að lögmaður skuli hafa gilda starfsábyrgðartryggingu í stað þess að núgildandi ákvæði segir að lögmaður skuli afla sér starfsábyrgðartryggingar.
    Í 4. mgr. eru sett ný ákvæði um notkun titilsins lögmaður. Lagt er til að heimild þeirra sem fengið hafa undanþágu frá skyldum 1. mgr. 12. gr. til að nefna sig lögmenn verði takmörkuð við þau lögfræðistörf sem hlutaðeigandi inna af hendi í þágu hagsmuna þeirra aðila sem þeir starfa fyrir. Þannig er heimild lögmanns sem er starfsmaður opinberrar stofnunar eða einkaaðila takmörkuð við lögfræðistörf sem unnin eru í þágu hagsmuna vinnuveitandans. Slíkur lögmaður hefur því ekki heimild til að vinna lögfræðistörf í þágu hagsmuna viðskiptavina vinnuveitanda síns sem lögmaður. Heimild lögmanns sem er starfsmaður félagasamtaka nær til að vinna lögfræðistörf fyrir vinnuveitanda sinn og félagsmenn þeirra samtaka sem lögmaðurinn er starfsmaður hjá. Þjónusta lögmannsins er þó takmörkuð við verkefni sem falla innan starfssviðs samtakanna. Sérstaklega er tekið fram í frumvarpinu að vinnuveitandi slíks lögmanns beri húsbóndaábyrgð á störfum lögmannsins. Um slíka húsbóndaábyrgð er ekki að ræða á störfum lögmanns með undanþágu skv. 1. tölul. 2. mgr. því að slíkur lögmaður hefur ekki heimild til að vinna störf fyrir annan en vinnuveitanda sinn. Er þessi breyting gerð m.a. til að tryggja rétta notkun lögmannstitilsins. Þá ber að geta þess að lögmenn þessir hafa fengið undanþágu frá skilyrðum 1. mgr., þar á meðal starfsábyrgðartryggingu, þar sem verksvið þeirra sem lögmanna er takmarkað við ákveðna aðila skv. 2. mgr.
    Í 6. mgr. er breytt orðalagi frá því sem er nú í 4. mgr. 12. gr. Í stað þess að skila leyfisbréfi sínu til ráðuneytisins og að réttindin skuli þá felld niður fullnægi lögmaður ekki skilyrðum til að njóta þeirra er lagt til að lögmaður leggi réttindi sín inn til ráðuneytisins þegar svo stendur á og þau verði þá lýst óvirk.

Um 8. gr.

    Á 13. gr. núgildandi laga sem m.a. fjallar um eftirlitsskyldu Lögmannafélags Íslands eru lagðar til nokkrar breytingar. Á 2. mgr. 13. gr. er lögð til sú breyting að félagið geti krafið lögmann um greiðslu kostnaðar við rannsókn á fjárreiðum hans. Eðlilegt er talið að lögmaður standi undir þeim kostnaði sem af rannsókn á fjárreiðum hans kann að hljótast.
    Þá er lagt til að 4. mgr. greinarinnar verði felld niður þar sem ekki er talin ástæða til að kveða á um í lögum að þeim sem sætir niðurfellingu réttinda sinna sé heimilt að höfða einkamál á hendur ríkinu til ógildingar á slíkri ákvörðun. Hér er um almenn réttindi að ræða sem ekki er ástæða til að kveða á um í sérlögum. Í staðinn kemur ný 4. mgr. er kveður á um að verði lögmaður sviptur sjálfræði eða fjárræði falli réttindi hans þegar niður. Skv. 3. mgr. 14. gr. lögræðislaga, nr. 71/1997, skal dómari svo fljótt sem við verður komið senda staðfest endurrit úrskurðar um sviptingu lögræðis með ábyrgðarbréfi eða á annan jafntryggan hátt til dómsmálaráðuneytisins. Óþarfi er því í þessum lögum að kveða á um tilkynningu til dómsmálaráðuneytisins ef lögmaður er sviptur lögræði. Samkvæmt nýrri 4. mgr. er jafnframt lagt til að verði bú lögmanns tekið til gjaldþrotaskipta falli réttindi hans þegar niður. Skal þá skiptastjóri tilkynna dómsmálaráðuneytinu svo fljótt sem verða má um töku búsins til gjaldþrotaskipta. Rétt þykir að hafa sérstakt ákvæði um að þegar lögmaður uppfyllir ekki lengur þessi grunnskilyrði lögmannsréttinda þá falli réttindi hans niður við úrskurð um töku bús til gjaldþrotaskipta eða sviptingu lögræðis en ekki þurfi að fella réttindin úr gildi eins og nú er.
    Þá er bætt inn í núverandi 3. mgr. 13. gr., sem fjallar um meðferð máls þegar lögmaður fullnægir ekki þeim skilyrðum sem fram koma í 6., 9. og 12. gr. laganna, ákvæði er undanskilur þau tilvik er fram koma í 4. mgr. 8. gr. frumvarpsins enda lúta þau tilvik sérmeðferð skv. 4. mgr. 8. gr.
    Þá er lagt til að ný málsgrein bætist við 13. gr. og verði 5. mgr. Þar er lagt til að skili lögmaður ekki inn til félagsins yfirlýsingu um fjárvörslur fyrir 1. október árlega eða reynist yfirlýsing sú er hann skilar inn ekki fullnægjandi beri Lögmannafélagi Íslands að leggja til við dómsmálaráðuneytið að réttindi hans verði felld niður. Rétt þykir að hafa þessa heimild í lögum sem hingað til hefur einingis verið í 18. gr. reglugerðar um vörslufjár reikninga lögmanna o.fl., nr. 201/1999.

Um 9. gr.

    Lögð er til sú breyting á 14. gr. laganna að úrskurðarnefnd lögmanna geti lagt til niðurfellingu lögmannsréttinda tímabundið eða að lögmaður verði sviptur réttindum þó svo að hann hafi lagt leyfisbréf sitt inn til dómsmálaráðuneytisins í samræmi við 2. mgr. 15. gr. og réttindin lýst óvirk. Ólíkar reglur gilda varðandi endurveitingu lögmannsréttinda þegar lögmaður er sviptur réttindum eða þegar hann leggur þau inn og þau eru lýst óvirk. Þykir eðlilegt að úrskurðarnefndin hafi þessa heimild til að leggja til að lögmaður, sem brotið hefur svo mjög gegn lögum og siðareglum lögmanna, sé sviptur réttindum eða réttindi hans felld niður þrátt fyrir að hann hafi lagt þau inn.
    Þá er lagt til að 3. mgr. 14. gr. verði felld niður af sömu ástæðu og greinir í athugasemd varðandi 4. mgr. 13. gr.

Um 10. gr.

    Sú breyting er lögð til á 15. gr. laganna að í stað þess að réttindi lögmanns verði felld niður þegar hann tekur við opinberu starfi sem dómsmálaráðherra telur ósamrýmanlegt handhöfn lögmannsréttinda er lagt til að taki lögmaður við slíku starfi skuli hann leggja réttindi sín inn til dómsmálaráðuneytisins sem þá lýsir réttindin óvirk.
    Lagt er til að felldur verði niður lokamálsliður 1. mgr. sem er samhljóða ákvæðum í 13. og 14. gr. sem lagt er til að verði felld niður.
    Þá er lagt til að orðalagi 2. mgr. verði breytt og að í stað þess að lögmaður afsali sér réttindum sínum sé honum ávallt frjálst að leggja réttindi sín inn til dómsmálaráðuneytisins og verði þau þá lýst óvirk. Nánar er fjallað um innlögn, niðurfellingu og sviptingu réttinda í 4. tölul. í almennum athugasemdum með frumvarpinu hér að framan.

Um 11. gr.

    Þær breytingar sem lagðar eru til á 16. gr. felast fyrst og fremst í breyttu orðalagi vegna innlagnar, niðurfellingar og brottfalls réttinda og endurveitingu þeirra. Skv. 1. mgr. greinarinnar skulu réttindi lögmanns lýst virk að nýju eða veitt honum að nýju eftir umsókn hans, án endurgjalds eða prófraunar, enda fullnægi hann öllum öðrum skilyrðum til að njóta þeirra, hafi þau verið lýst óvirk eða þau fallið niður eða verið felld niður samkvæmt einhverju því sem segir í 12.–15. gr. laganna. Þá er einnig lagt til að staðfestingar Lögmannfélagsins verði leitað á því hvort yfirlýsingu um fjárvörslur hafi verið skilað á fullnægjandi hátt hafi réttindi lögmannsins verið felld niður þar sem hann skilaði ekki inn slíkri yfirlýsingu. Í 2. mgr. 16. gr. er lögð til sú breyting að til þess að dómsmálaráðherra geti heimilað þeim sem sviptur hefur verið réttindum að gangast undir lögmannspróf að nýju skuli liggja fyrir meðmæli Lögmannafélags Íslands en í núgildandi ákvæði er aðeins krafist umsagnar félagsins. Ekki er gert ráð fyrir að viðkomandi þurfi að uppfylla skilyrðið um starfsreynslu skv. 5. tölul. 1. mgr. 6. gr. áður en hann þreytir prófið.

Um 12. gr.

    Aðeins eru lagðar til breytingar á 17. gr. sem stafa af breyttu orðalagi á afsali og niðurfellingu réttinda.

Um 13. gr.

    Lagt er til að núgildandi 5. mgr. 19. gr. laganna verði felld brott en þar er fjallað um að ráðherra geti heimilað að aðrir en lögmenn geti rekið félag um skrifstofu lögmanns. Er það ekki talið samræmast anda laganna um óháða lögmannastétt að aðrir en lögmenn geti átt hlut í lögmannsstofu.

Um 14. gr.

    Í 1. mgr. 23. gr. er kveðið á um skyldu lögmanns til að hafa sérstakan vörslufjárreikning og áréttuð sú skylda sem kveðið er á um í 1. mgr. 12. gr. Lögð er til sú breyting að lögmanni sé ávallt skylt að hafa sérstakan vörslufjárreikning, hvort sem hann hefur vörslufé með höndum eða ekki.
    Í 2. mgr. er tekið upp nýtt ákvæði þar sem lögfest er skylda lögmanns til að senda Lögmannafélagi Íslands fjárvörsluyfirlýsingu og upplýsingar um verðbréf í hans vörslu og skal hvort tveggja staðfest af löggiltum endurskoðanda. Jafnframt eru tilgreindir þeir tímafrestir sem miða ber upplýsingarnar við og skilafrestur yfirlýsinganna. Ákvæðið á sér fyrirmynd í núgildandi reglugerð um vörslufjár reikninga lögmanna o.fl., nr. 201/1999, en rétt þykir að tryggja frekar grundvöll þessarar skyldu með því að lögfesta hana.
    3. mgr. er óbreytt 2. mgr. 23. gr.

Um 15. gr.

    Lagt er til að við 1. mgr. 26. gr. laganna bætist nýr málsliður um að úrskurðarnefnd lögmanna vísi frá ágreiningsmáli um endurgjald ef lengri tími en eitt ár er liðinn frá því að kostur var á að koma því á framfæri. Samkvæmt lögmannalögum fjallar nefndin annars vegar um ágreiningsmál um endurgjald fyrir lögmannsstörf, sbr. 1. mgr. 26. gr., og hins vegar um kvartanir sem nefndinni berast vegna meintra brota lögmanna í störfum þeirra á lögum eða siðareglum, sbr. 1. mgr. 27. gr. laganna. Samkvæmt síðari málslið 1. mgr. 27. gr. laganna vísar nefndin frá sér kvörtun ef lengri tími en eitt ár er liðinn frá því að kostur var á að koma henni á framfæri. Sambærilegt fyrningarákvæði er ekki að finna í lögunum að því er varðar ágreiningsmál um endurgjald. Vegna þessa hefur úrskurðarnefndin í nokkrum tilvikum þurft að fjalla um ágreingsmál um endurgjald sem eru orðin nokkurra ára gömul. Úrlausn gamalla mála getur verið erfið í framkvæmd og eðlilegt er að sambærilegt fyrningarákvæði sé til fyrir ágreiningsmál um endurgjald og gildir um kvartanir.

Um 16. gr.

    Samkvæmt 2. mgr. 27. gr. laganna getur úrskurðarnefnd lögmanna fundið að vinnubrögðum eða háttsemi lögmanns eða veitt honum viðvörun eða áminningu. Er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að erfitt sé í framkvæmd að beita viðvörun og nægjanlegt sé fyrir nefndina að geta fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu auk þess að geta sent dómsmálaráðherra tillögu skv. 1. mgr. 14. gr. laganna. Lagt er því til að tekin verði út heimild úrskurðarnefndarinnar um að veita lögmanni viðvörun.

Um 17. gr.

    Lagðar eru til þrjár breytingar á 28. gr. laganna sem fjallar um rekstur mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Í fyrsta lagi er lagt til að úrskurðarnefndinni verði veitt heimild til að leggja á hæfilegt málagjald sem þeim er ber fram kvörtun fyrir nefndina verði gert að greiða. Sé slíkt málagjald tekið upp og innheimt er gengið út frá því að gjaldið verði endurgreitt til málshefjanda komi í ljós að framlögð kvörtun eigi við rök að styðjast. Í öðru lagi er lagt til að heimild nefndarinnar til að skylda málsaðila til greiðslu málskostnaðar til gagnaðila verði rýmkuð frá því sem nú er. Í stað þess að slíkt sé einungis heimilt þegar sérstaklega stendur á, eins og ákvæðið hljóðar nú, er gert ráð fyrir að úrskurðarnefndin geti lagt slíka greiðsluskyldu á án sérstakra takmarkana. Í þriðja lagi er lagt til nefndinni verði veitt heimild til að ákveða, ef sérstaklega stendur á, að málsaðilar greiði kostnað sem hlýst af störfum nefndarinnar við mál þeirra. Með kostnaði er hér bæði átt við fastan og breytilegan kostnað nefndarinnar af rekstri viðkomandi máls.

Um 18. gr.

    Lagðar eru til nokkrar breytingar á efni 2. mgr. 29. gr. laganna varðandi notkun starfsheita lögmanna. Í fyrsta lagi er bætt við ákvæði um að verndun starfsheitisins taki einnig til skammstafananna hdl. og hrl. Í öðru lagi er breytt orðalagi þannig að í stað þess að talað er um „fullgild starfsréttindi“ komi virk réttindi svo sem þeim er lýst í 12. gr. og árétting um að ákvæði 12. gr. þurfi að uppfylla. Í þriðja lagi er lagt til að sama gildi um starfsheiti erlendra lögmanna sem hér starfa á grundvelli tilskipana Evrópusambandsins undir sínum heimatitli þannig að það varði sektum að nota þá titla án þess að hafa til þess tilskilið starfsleyfi heimalands.
    Tilgangur þessara breytinga er að taka af allan vafa um hvenær handhafar lögmannsréttinda megi nota titilinn lögmaður, héraðsdóms- eða hæstaréttarlögmaður eða skammstöfun þessara titla. Þannig verður einungis þeim sem hafa virk réttindi samkvæmt lögunum heimilt að nota lögmannstitil og þeim handhöfum lögmannsréttinda sem starfa á grundvelli undanþágu skv. 1. og 3. tölul. 2. mgr. 12. gr. laganna eru settar skýrari leiðbeiningar um það hvenær þeim er heimilt að nota hann. Eiga þar við sömu sjónarmið og fram koma í athugasemdum við 7. gr. frumvarpsins um 3. mgr. 12. gr. laganna.

Um 19. gr.

    Lagt er til að þau ákvæði 31. gr. sem ekki hafa lengur gildi vegna tímamarka verði felld brott.

Um 20. gr.

    Núgildandi ákvæði til bráðabirgða um skipun úrskurðarnefndar lögmanna er breytt með tilliti til þess að í frumvarpinu er lagt til að úrskurðarnefnd lögmanna verði skipuð þremur mönnum í stað fimm.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum um lögmenn,
nr. 77 15. júní 1998, með síðari breytingum.

    Efni frumvarps þessa er í höfuðatriðum tvíþætt. Annars vegar felur það í sér endurskoðun á ákvæðum laga um lögmenn varðandi veitingu og niðurfellingu lögmannsréttinda og eftirlit. Hins vegar er ákvæðum frumvarpsins ætlað að innleiða EES-gerð um réttindi erlendra lögmanna sem starfa hér á landi undir starfsheiti heimaríkis síns.
    Í tengslum við Lögmannafélag Íslands starfar sjálfstæð úrskurðarnefnd lögmanna sem leysir úr málum eftir ákvæðum laganna, svo sem kvörtunum á hendur lögmönnum. Starfar hún ekki í umboði dómsmálaráherra en getur lagt til við ráðherra að réttindi lögmanns sem brotið hefur gegn lögunum verði afturkölluð tímabundið eða til frambúðar. Samkvæmt frumvarpinu verður úrskurðarnefndinni heimilt að innheimta gjald fyrir upptöku mála sem endurgreiðist til málshefjanda hafi reynst vera grundvöllur fyrir erindinu. Einnig verður nefndinni heimilt að skylda aðila til að greiða gagnaðila málskostnað og ef sérstaklega stendur á að málsaðilar greiði kostnað sem hlýst af störfum nefndarinnar. Þá er í frumvarpinu kveðið á um að Lögmannafélag Íslands hafi eftirlit með því að lögmenn uppfylli skilyrði fyrir lögmannsréttindum, þar á meðal hvernig staðið er að vörslufjárreikningum og starfsábyrgðartryggingum, og getur félagið krafið lögmenn um greiðslu kostnaðar við rannsóknir í því skyni.
    Úrskurðarnefndin og félagið hafa samkvæmt frumvarpinu nokkuð takmarkað eftirlitssvið og fara ekki með stjórnsýsluvald. Með hliðsjón af því er ekki talið að fjármál í tengslum framkvæmd ákvæða frumvarpsins verði talin til opinberra fjárreiðna. Er því ekki ástæða til að ætla að lögfesting frumvarpsins hafi áhrif á fjárreiður ríkissjóðs.